Jökull „Kaldi“ Jóhannsson, einn reyndasti og sigursælasti Hearthstone-spilari Íslands, hefur snúið aftur á vígvöllinn – og það með látum. Eftir áratugar hlé er Kaldi kominn beint í hóp 50 bestu spilara Evrópu, og rifjar nú upp tímana með hinum heimsfræga liðinu Fnatic, nýtt hlutverk sitt hjá Rafíþróttasambandi Íslands og breytt landslag Hearthstone-leiksins.
Það er fáheyrt að leikmaður taki sér áratugarhlé frá keppni og komi svo aftur beint í toppbaráttu. En það er einmitt það sem Jökull „Kaldi“ Jóhannsson hefur gert í Hearthstone – leiknum sem hann eitt sinn lék af slíkri snilld að hann keppti undir merkjum stórveldisins Fnatic og ruddi brautina fyrir íslenskar rafíþróttir á alþjóðavísu.
Í samtali við esports.is lýsir Kaldi þeirri ákvörðun að taka upp spilamúsina á ný:
„Þetta er í raun eitthvað sem ég hef haft á bak við eyrað frá því að ég hóf störf hjá RÍSÍ fyrir rúmu ári síðan. Búið að vera gaman að fylgjast með rafíþróttunum á Íslandi. Í raun ekkert eitt augnablik – þetta gerðist smám saman.“
Frá 1.000 í apríl – í top 50 í maí
„Þetta er nú bara allt saman gleði,“ segir Kaldi og brosir, spurður hvernig það hafi verið að snúa aftur og ná strax þessum árangri. „Var mjög sáttur með að ná top 1.000 í apríl og svo small þetta allt saman í maí.“
Leikurinn hefur þróast – og betri spilun fylgir
„Já, ekki spurning,“ segir hann um hvort leikurinn hafi breyst frá því hann hætti. „Ég var virkur síðast í lok árs 2015. Nú er komin mun meiri festa í þetta – spil sem draga ákveðin spil, þannig áherslan er meira á framkvæmd og að skilja stöðuna heldur en að reiða sig á heppni.“
Kaldi nefnir sérstaklega að aggressífustu spilin hafi nánast horfið, og að ákveðnar hönnunarbreytingar geri leikinn dýpri og meira byggðan á útreikningum og dómgreind.
„Death Knight getur þurrkað út borðið fimm sinnum“
Að takast á við erfið matchups er hluti af keppninni, og Kaldi hefur þróað sína nálgun gegn Death Knight spilurum, sem eru 20% af leikjum hans:
„Ég byrjaði að pressa fyrr og taka fleiri sénsa. Fór úr því að vinna 25% í því matchupi yfir í að fá fimmta hvern leik nánast ‘ókeypis’ og enda þá í rúmum 50%.“

Liðsmynd frá DreamHack Winter 2014.
Efri röð frá vinstri: Kaldi, Bluesy, Twixsen, Frezzar.
Neðri röð frá vinstri: Pronax, JW, Flusha, KRIMZ, Olofmeister.
Tímarnir með Fnatic – og nuddari í teyminu
Afreksferill Kalda hófst fyrir rúmum áratug þegar hann lék fyrir lið á borð við vVv, Infused Gaming og Reason Gaming – en það var með Fnatic sem hann náði hæstu hæðum.
„Það var mikill heiður. Maður fann fyrir því að vilja sanna sig og standa undir þessu. Fnatic á þessum tíma var sterkast í heiminum í CS, og þegar við mættumst á mótum fann maður sig hluta af alvöru alþjóðlegu fyrirtæki. Þeir gengu mjög langt – liðið var með það mikið af starfsfólki að meðal þeirra var nuddari!“
Engin hjátrú – bara tölfræði og hugarfar atvinnumanns
Spurður hvort hann sé hjátrúarfullur þegar kemur að keppni, segir Kaldi nei – en tekur þó fram að það sé mjög algengt meðal atvinnumanna í Hearthstone.
„Fyrir mér hefur þetta alltaf verið stærðfræðin, undirbúningurinn og tölfræðin. Þegar maður var með þetta fyrir atvinnu, þá þýddi það ekki að svekkja sig yfir spilum – það snýst um ákvarðanir, ekki útkomu.“
Klassískur Kaldi – sterkastur þegar mest er undir
Hvað hefur ekki breyst í spilamennsku Kalda á þessum tíu árum?
„Ég hef alltaf verið sterkastur þegar mest er undir. Það er kannski það sem er klassískur Kaldi.“
Hann segist hafa minni tíma í dag til að ná æfingu í hægari leikstíl, en hyggst nýta sumarið til að reyna slíkt aftur. Á meðan heldur hann áfram á laddernum.
RÍSÍ og hlutverkið hans utan leiksins
Kaldi gegnir einnig lykilhlutverki utan leiksins – sem framkvæmdastjóri Rafíþróttasambands Íslands (RÍSÍ). Þar hefur hann meðal annars leitt samstarfssamninga og þróun rafíþrótta á Íslandi, líkt og sjá má í fréttum á mbl.is og viðtali við Viðskiptablaðið.
„Starfið er meira og minna fólgið í sölu, starfsmannamálum, stefnumótun og skipulagi. Rafíþróttirnar sjálfar spila þar lítinn hluta – en það hjálpar að hafa bakgrunninn þegar kemur að ákveðnum ákvörðunum.“
Hann bætir við að starfið hjá RÍSÍ hafi tekið mestan hluta tímans sem annars hefði farið í æfingar, en heldur engu að síður dampi sem leikmaður – og hyggst halda áfram að berjast á efsta stigi, jafnvel taka þátt í mótum í sumarfríinu.
Kaldi snýr ekki aftur til að rifja upp gamla tíma – heldur til að búa til nýja. Með leikgleðina að vopni og áralanga reynslu að baki stígur hann aftur inn á sviðið, ekki til að sækja fortíðina – heldur til að mæta framtíðinni.
Myndir: aðsendar