Capcom hefur tilkynnt að netleikurinn Resident Evil Re:Verse muni hætta starfsemi þann 29. júlí 2025. Ákvörðunin kemur í kjölfar minnkandi áhuga leikmanna og fækkunar virkra notenda. Í aðdraganda lokunarinnar verða allar viðbætur (DLCs) fjarlægðar úr netverslunum í mars, að því er fram kemur í tilkynningu frá Capcom.
Resident Evil Re:Verse var upphaflega kynntur sem fjölspilunar viðbót við Resident Evil Village, en náði aldrei að laða að sér stóran hóp leikmanna. Þrátt fyrir að bjóða upp á bardaga milli þekktra persóna úr Resident Evil-heiminum tókst leiknum ekki að halda uppi stöðugum spilendahópi.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Capcom á í erfiðleikum með fjölspilunar leiki af Resident Evil. Fyrri tilraunir, eins og Resident Evil: Resistance og Umbrella Corps, fengu einnig blendnar viðtökur og áttu erfitt með að halda spilendum.
Leikmenn sem hafa notið Resident Evil Re:Verse eru hvattir til að nýta tímann fram að lokun til að njóta leiksins áður en netþjónarnir verða lokaðir endanlega í júlí.
Mynd: residentevil.com