Árleg hátíð EVE Online leikmanna, EVE Fanfest, hófst í dag í Hörpu í Reykjavík með fjölbreyttri og metnaðarfullri dagskrá. Þar koma saman leikmenn, verktakar, vísindamenn og áhugafólk alls staðar að úr heiminum til að fagna samfélaginu í kringum New Eden — heim EVE Online. Með bæði lifandi viðburðum og streymi fyrir þá sem fylgjast með heiman frá, lofar hátíðin að verða einn stærsti og fjölbreyttasti viðburður EVE-heimsins til þessa.
Hátíðin hófst núna kl. 10:00 með formlegri opnun í fyrirlestrasalnum undir heitinu „Undocking Confirmed for Fanfest 2025!“ Þar var farið yfir nýjustu viðburði og uppfærslur í leiknum, auk þess sem kastljósinu var beint að merkilegum afrekum einstakra leikmanna — svokallaðra capsuleers. Stiklað var á stóru í tölfræði og þróun EVE-heimsins að undanförnu og skýr gögn notuð til að draga fram hvernig leikurinn heldur áfram að þróast og dafna.
Á eftir opnuninni tekur við metnaðarfull dagskrá sem spannar bæði vísindi, samfélag og leikjamenningu:
Dagskrá föstudagsins 2. maí – EVE Fanfest 2025
11:30 – 12:15
Vísindaskáldskapur að veruleika – Dr. Ronald Turner (Fa’ile Callandor)
Dr. Turner, sem einnig er þekktur sem Fa’ile Callandor í EVE-heiminum, hefur frá árinu 2011 starfað fyrir NASA Innovative Advanced Concepts (NIAC). Verkefnið er kallað “Draumaverkstæði NASA” og styrkir rannsóknir sem liggja á mörkum vísinda og vísindaskáldskapar — en gætu orðið lykillinn að framtíð flug- og geimferða.
12:30 – 13:15
Að skapa og viðhalda leikheim – NPSI, samfélög og viðburðir
Keacte, margreyndur talsmaður Not Purple Shoot It (NPSI) hópa, fyrrum CSM meðlimurinn og stofnandi EVE Rookies, Kshal Aideron, ásamt Samtakahöfðingjanum Sin Alarma, ræða hvernig leikmenn skapa og viðhalda innihaldi í EVE. Þar verður fjallað um mikilvægi samfélagsviðburða og hvernig leikheimurinn þróast af sjálfu sér í samspili við spilara.
13:30 – 14:15
Efnahagur EVE – Gögn og greiningar frá CCP Data Team
Gögn, gröf og innsýn í efnahag heimsins í EVE Online. Hvað hefur áhrif á markaði, verðbreytingar og auðlindanýtingu? Tölfræðisérfræðingar CCP varpa ljósi á hvernig leikurinn endurspeglar flókið efnahagskerfi sem breytist í takt við hegðun leikmanna.
14:30 – 15:15
Svarthol og vísindi – Dr. Becky Smethurst
Hvað gerir svarthol svona ofboðslega stór? Dr. Smethurst tekur á algengum mýtum og notar nýjustu rannsóknir til að útskýra raunverulegan vöxt svarthola. Hún skoðar einnig hvernig svarthol og ormagöng eru sýnd í kvikmyndum og menningu, og hversu vísindalega rétt þær sýn eru í raun og veru.
16:00 – 17:00
Framtíð New Eden – Nýjungar frá CCP Games
Síðasti liður dagsins er tileinkaður framtíðinni. Þar koma helstu þróunarteymi CCP Games saman og kynna það nýjasta úr smiðju EVE Online – þar á meðal fyrstu sýn á sumarexpansion leiksins. Einnig verða nýjar upplýsingar um tilraunaleikinn EVE Vanguard, opna alheimsvíddina í EVE Frontier og nýjasta stórverkefnið EVE Galaxy Conquest.
Dagskráin heldur áfram út helgina með fjölbreyttum viðburðum og fyrirlestrum. Þeir sem ekki komast á staðinn geta fylgst með öllu í beinni útsendingu á opinberri heimasíðu EVE Fanfest: eveonline.com/fanfest
#EVEFanfest2025 pic.twitter.com/5EoYM9PXh5
— TJ Denzer (@JohnnyChugs) May 2, 2025
LAN-veisla setti tóninn fyrir EVE Fanfest – uppselt og frábær stemming
Fanfest-hátíðin hófst í raun með krafti í gær, þegar fjöldi leikmanna og þróunaraðila úr EVE-samfélaginu kom saman á LAN-veislu í Arena Gaming í Kópavogi.
Gestir nutu klukkustunda af PvP-leikjum á öflugum leikjatölvum, ásamt drykkjum og pizzuhlaðborði. Þar gafst leikmönnum og CCP þróunarteyminu kjörið tækifæri til að hittast, keppa og spjalla í afslöppuðu umhverfi áður en aðalviðburðir hátíðarinnar tóku við í Hörpu daginn eftir, þ.e. í dag.
Myndir: Skjáskot úr beinni útsendingu frá CCP Games.