Heim / Lan-, online mót / Eitt stærsta rafíþrótta­mót heims í Laug­ar­dals­höll
Hverju viltu fylgjast með?  Þitt er valið

Eitt stærsta rafíþrótta­mót heims í Laug­ar­dals­höll

eSports - Rafíþróttamót - League of Legends Mid-Season Invitational - MSI 2021

Eitt stærsta rafíþróttamót heims, League of Legends Mid-Season Invitational, verður haldið í Laugardalshöll í maí. Í framhaldi af því verður í fyrsta skipti haldið alþjóðlegt mót í tölvuleiknum Valorant á sama stað.

Í fréttatilkynningu frá Íslandsstofu segir að alls munu um fjögur hundruð manns koma til landsins í tengslum við þessi tvö mót sem standa samtals yfir í um fjórar vikur. Keppendur og starfsfólk munu í öllu fylgja gildandi sóttvarnarreglum og fara í sóttkví áður en mótið hefst. Einnig verða sýni tekin reglulega úr gestum til að fyrirbyggja að smit komi upp í hópnum. Riot Games hefur verið í beinu samráði við Embætti landlæknis til þess að tryggja að smitvarnir verði með sem bestu móti.

Íslandsstofa aðstoðaði Riot Games við að komast í samband við Reykjavíkurborg og aðra þjónustuaðila hérlendis sem taka þátt í undirbúningi mótsins. Alls mun hópurinn kaupa um 8.000 gistinætur á íslenskum hótelum á þessum tíma, auk þess sem íslenskir þjónustuaðilar munu koma að framkvæmd mótsins. Því er ljóst að um gríðarstórt tækifæri til að kynna Reykjavík sem áfangastað fyrir erlenda ferðamenn er að ræða.

League of Legends er einn vinsælasti tölvuleikur heims og áhorf á beinar útsendingar frá keppnum atvinnumanna njóta gríðarlegra vinsælda. Alls horfðu um 23 milljónir manns á beina útsendingu frá úrslitaleiknum á heimsmeistaramótinu í leiknum sem fram fór í Shanghai í desember síðastliðnum, og um hundrað milljón einstakir áhorfendur fylgdust með útsendingum frá heimsmeistaramótinu 2019.

Karl Guðmundsson, forstöðumaður úflutnings- og fjárfestingasviðs Íslandsstofu: „Reykjavík var í hópi 15 borga sem sóttust eftir því að halda þetta mót. Áhugi Riot Games á því að halda mótið hér á Íslandi var ljós frá okkar fyrsta fundi með þeim. Það er góður vitnisburður um það hve mikils trausts íslenskt samfélag nýtur að Ísland varð fyrir valinu.”

John Needham, yfirmaður rafíþróttadeildar Riot Games: „Við erum spennt fyrir að halda mót í jafn fallegu og einstöku landi og Ísland er. Það sýnir ástríðuna fyrir rafíþróttum Riot Games að þær eru spilaðar um allan heim.“

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar: „Þetta eru fyrstu góðu fréttirnar sem íslensk ferðaþjónusta hefur fengið í nokkuð langan tíma. Vonandi fyrstu af mörgum, nú þegar reikna má með að markaðir fari að taka við sér í kjölfar bólusetninga.“

Ólafur Hrafn Steinarsson, formaður Rafíþróttasamtaka Íslands. „Rafíþróttir á Íslandi hafa vaxið hratt á undanförnum árum og hefur hluti af verkefnum RÍSÍ verið að koma Íslandi inn á rafíþróttakortið sem spennandi vettvangur fyrir framtíðarhæfileika í rafíþróttum og einstök staðsetning fyrir alþjóðlega rafíþróttaviðburði.

Það að fá Riot Games til Íslands með tvo af stærstu rafíþróttaviðburðum heims er gífurleg viðurkenning á þessu starfi og leggur grunninn að því að laða til landsins fleiri stóra rafíþróttaviðburði í framtíðinni. Þá er þetta einstakt tækifæri fyrir Ísland að mynda mikilvæg og sterk tengsl við einstaklinga sem leiða þróun atvinnurafíþrótta á heimsvísu. Ég tel að þegar litið verður til baka yfir sögu Íslands mun koma þessara viðburða til landsins standa upp úr sem stórt skref fyrir Ísland inn í stafrænan heim framtíðarinnar“

Mynd:  lolesports.com

Um Chef-Jack

Chef-Jack er matreiðslumaður að mennt og hefur verið með pennann á lofti til fjölda ára og skrifað mikið um tölvuleiki og allt sem snýr að Íslensku tölvuleikjasamfélaginu. Hægt er að hafa samband við Chef-Jack á netfangið: [email protected]
x

Check Also

League of Legends

Stefna mótuð um rafíþróttir

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra ...