
Mynd: Henrik Kärkkäinen / is.fi
Í óvæntum og eftirminnilegum úrslitum á Finnish Game Awards 2025 hlaut tölvuleikurinn Pax Dei titilinn „Leikur ársins 2024“. Leikurinn er afurð íslensk-finnska leikjafyrirtækisins Mainframe Industries og ruddi sér til rúms á kostnað stórfyrirtækja á borð við Supercell og Remedy.
Pax Dei er metnaðarfullur fjölspilunarleikur á netinu sem hönnuðurinn lýsir sem „félagslegum Sandbox-tölvuleikur“ þar sem leikmenn hafa algjört frelsi til að móta og byggja upp eigin veröld. Kjarninn í leiknum felst í samskiptum og samvinnu notenda sem mynda samfélög, skiptast á gögnum og takast á við sameiginleg verkefni. Fyrir þá sem þrá meira spennustig býður leikurinn upp á opinn heim þar sem óþekktar verur, yfirnáttúruleg öfl og óvæntar áskoranir bíða þeirra sem þora að stíga út fyrir þægindasvæði sitt.

Mynd: Henrik Kärkkäinen / is.fi
Leikurinn markar tímamót fyrir Mainframe Industries, sem var stofnað árið 2019 með starfsemi bæði á Íslandi og í Finnlandi. Pax Dei er fyrsti leikur fyrirtækisins og þrátt fyrir rekstrartap sem nam 16 milljónum evra fyrstu fimm árin hefur áhugi og viðurkenning á leiknum vakið athygli víða. Tekjur fyrirtækisins hafa enn ekki verið opinberaðar, en sigur þess á Finnish Game Awards er ótvírætt skref inn á stóra sviðið.
Sjá einnig: Nýtt tölvuleikjafyrirtæki stofnað með tveggja milljón evra fjármögnun
Tölvuleikjarisar duttu úr leik
Í fyrsta sinn í sögu verðlaunahátíðarinnar voru veitt verðlaun til þriggja efstu leikja í aðalflokki ársins. Þótt keppnin hafi verið jöfn, kom sigur Pax Dei mörgum á óvart, enda var leikurinn í samkeppni við rótgróin og víðfræg nöfn á borð við Supercell, Housemarque og Remedy – fyrirtæki sem jafnan hreppa verðlaun þegar þau gefa út nýjar afurðir, að því er fram kemur á fréttavefnum is.fi, en fréttatilkynninguna er hægt að lesa í heild sinni á neogames.fi, heimasíðu Finnish Game Awards.

Annað sætið hlaut Supermoves, parkour-leikur frá Makea Games, sem lagði niður starf í apríl 2025 – verðlaunin urðu þar með óvæntur kveðjugjörningur til þessa unga en sköpunarglaða fyrirtækis.
Í þriðja sæti voru þrír leikir:
Lego Hill Climb Adventures frá Fingersoft,
Finnish Cottage Simulator, gamansamur og óvænt vinsæll sveitaleikur frá Ranela Games, þróaður af þremur háskólanemum,
og Squad Busters frá Supercell – leikur sem átti að marka stóran endurkomusigur fyrir fyrirtækið eftir sex ára hlé.
Squad Busters var kynnt með mikilli viðhöfn og fjárfestu Supercell hundruð milljóna evra í markaðsherferðinni. Þrátt fyrir að leikurinn hafi skilað 100 milljónum dollara í tekjur á fyrstu sjö mánuðum dreifingar sinnar, voru væntingar fyrirtækisins langt umfram þann árangur. Að leikurinn næði aðeins sameiginlegu þriðja sæti var því veruleg vonbrigði fyrir þetta stærsta nafnið í finnskum leikjaiðnaði.

Viðurkenningar kvöldsins
Þrátt fyrir takmarkaðan árangur Squad Busters á aðalverðlaununum, fékk Supercell engu að síður viðurkenningu – stofnandi og forstjóri fyrirtækisins, Ilkka Paananen, var sæmdur verðlaunum sem „Áhrifamaður ársins“ fyrir ævistarf sitt og ómetanlegt framlag til leikjaiðnaðarins.
Aðrir verðlaunahafar kvöldsins voru:
Nýliði ársins: Hanki Games fyrir snjósleðaleikinn Sledders.
Besta indíleikjaverkefni: Finnish Cottage Simulator frá Ranela Games.
Skapandi útfærsla ársins: Pools frá Tensori.
Ævistarf (IGDA): Christopher Hamilton.
Sjálfboðaliði ársins (IGDA): Daria Bokovaya.
Nemakeppnin Bit1: Team Scavenger fyrir leikinn Spaceship Scavenger.
Finnish Game Jam Jampion: Ali İrdiren.
Verðlaunahátíðin var haldin af samtökunum Suomen pelinkehittäjät ry og Neogames Finland ry, sem gegna lykilhlutverki í þróun og stuðningi við finnskan (og norrænan) leikjaiðnað.
Vídeó – Gameplay
Hápunktur kvöldsins
Afhending verðlaunanna til Mainframe átti sér stað um það bil á 2:44:00 í streymi kvöldsins sem sjá má hér að neðan: