Bandaríski leikjaframleiðandinn Motorsport Games hefur tryggt sér 2,5 milljónir bandaríkjadala (um 343 milljónir íslenskra króna) í nýrri fjárfestingu frá tæknifyrirtækinu Pimax, sem sérhæfir sig í sýndarveruleikabúnaði (VR). Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Motorsport Games.
Fjárfestingin felur í sér kaup á 1,8 milljónum hlutabréfa í flokki A og fyrirframgreiddum kauprétti á 377.836 hlutum til viðbótar. Hlutabréfin voru seld á verði upp á 1,10 dali (um 151 krónu) hvert og kauprétturinn á 1,09 dali (um 150 krónur) á hlut.
Samkvæmt tilkynningu frá fyrirtækinu verður fjármagnið notað til að bæta lausafjárstöðu, fjármagna rekstrarfé og almennan rekstur. Auk þess mun fjárfestingin hraða þróun nýrra vara, þar á meðal sýndarveruleika fyrir kappakstursleikinn Le Mans Ultimate, sem kom út í forútgáfu í febrúar 2024 og er opinberi leikur Heimsmeistarakeppni Alþjóðabílaíþróttasambandsins (FIA WEC).
„Við erum ánægð með viðbrögðin við leit okkar að frekari fjárfestingu og eftir ítarlegar viðræður við Pimax erum við ánægð með að ljúka fjárfestingu þeirra í Motorsport Games.
Við erum spennt að hafa Pimax sem samstarfsaðila og teljum að þetta sé mikilvægur áfangasigur fyrir hluthafa okkar þar sem við styrkjum fjárhagsstöðu fyrirtækisins og aukum traust á getu okkar til að ná árangri.“
Sagði Stephen Hood, forstjóri Motorsport Games í tilkynningu.
Fjárhagsstaða Motorsport Games hefur verið til umræðu í sim racing-geiranum. Fyrirtækið hafði áður réttinn til að þróa leik fyrir IndyCar-einmenningakeppnina, en sá samningur var felldur úr gildi eftir að fyrirtækið átti í greiðsluerfiðleikum.
Auk Le Mans Ultimate gefur Motorsport Games einnig út kappakstursleiki eins og rFactor 2 og KartKraft. Fyrirtækið stefnir að því að nýta fjárfestinguna til að styrkja stöðu sína á markaðnum og auka þróun nýrra vara.
Mynd: motorsportgames.com