Spennan í Ljósleiðaradeildinni nær hámarki á laugardagskvöld þegar úrvalsdeildarliðin Dusty og Þór berjast um Íslandsmeistaratitilinn í Counter Strike í Arena á Smáratorgi.
Þór komst í úrslit með sigri á liði Ármanns á þriðjudaginn og Dusty stimplaði sig sannfærandi inn með því að leggja Veca í seinni undanúrslitaleiknum á fimmtudaginn.
Tómas Jóhannsson, sem hefur lýst öllum umferðum Ljósleiðaradeildarinnar í beinni útsendingu, telur víst að úrslitaviðureign milli Dusty og Þórs sé sá leikur sem flestir áhorfendur hafi viljað sjá. Enda eigi liðin tvö stærstu áhangendahópa landsins og eru auk þess, í það minnsta á pappírunum, skipuð mörgum bestu leikmönnum landsins í Counter Strike.
Úrslitakvöldið er eðli málsins samkvæmt hápunktur keppnistímabilsins og mikið verður því um dýrðir og stanslaust stuð í Arena allan keppnisdaginn og langt fram eftir kvöldi.
Árveig Lilja „Nutella“ Bjarnadóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í Counter Strike, er veislustjóri og þegar er ljóst að færri munu komast að en vilja.
Fjölmiðlar eru að sjálfsögðu velkomnir hvenær sem er og engin hætta á öðru en að frá klukkan 16 og fram eftir kvöldi verði nóg af hressum og áhugaverðum viðmælendum, skemmtilegu myndefni og íþróttakappleikjastemningu eins og hún gerist best.
Húsið opnar klukkan 14. Beint streymi byrjar klukkan 16 og keppnin sjálf hefst síðan klukkan 18.
Ætla má að úrslit liggi fyrir um klukkan 21 en spilað verður eftir „best of five“ fyrirkomulagi þannig að það lið sem verður fyrra til að vinna þrjá leiki af fimm stendur uppi sem sigurvegari og Íslandsmeistari í Counter Strike 2024.
Mynd: smaratorg.is