„Þetta verður svona aðeins snarpara vegna þess að þetta eru bara þrír dagar,“
segir Stefán Atli Rúnarsson sem ætlar að lýsa Reykjavík International Games (RIG) í Fortnite í beinni útsendingu.
Mótið hefst með undankeppni miðvikudaginn 15. janúar og heldur síðan áfram viku síðar, 22. janúar. Keppt verður í hefðbundnum Battle Royal þar til aðeins tíu standa uppi og mætast í úrslitum í Laugardalshöll laugardaginn 25. janúar.
Skráning á RIG 2025 í Fortnite er enn í gangi hér þar sem einnig má nálgast allar frekari upplýsingar.
„Ég lýsti fjórum eða fimm umferðum í ELKO-Deildinni og það var mjög gaman en þetta er náttúrlega styttri tími núna,“
segir Stefán en í fyrra var keppnistímabilið tíu vikur og lauk með úrslitum í desember.
Aftur í Höllina
„Og það verður að náttúrlega ógeðslega gaman að koma aftur í Laugardalshöllina,“
bætir hann við en segja má að þar muni hann loka ákveðnum hring þar sem hann lýsti fyrsta RIG mótinu þaðan árið 2019.
„Ég, Ingi Bauer og Kristján Einarsson sáum um beinu lýsingarnar frá RIG þegar mótið var haldið í fyrsta skipti í janúar 2019. Þá vorum við líka með Stjörnustríð þar sem Steindi, Herra Hnetusmjör, Donna Cruz og Gunnar Nelson mættu og spiluðu Fortnite með okkur,“
segir Stefán Atli, hokinn af þekkingu og reynslu eftir að hafa haslað sér völl á Fortnite senunni á Íslandi fyrir sjö árum síðan.
Skrúfað frá Fortnite-streyminu
„Ég og Ingi Bauer erum búnir að vera viðloðandi íslensku Fortnite senuna síðan 2018 þegar við byrjuðum í janúar með streymið okkar, Ice Cold, og urðum þar með fyrstir til að streyma Fortnite á Íslandi.“
YouTube síðan Ice Cold var með 9000 áskrifendur og þeir félagar voru á þessum tíma iðnir við að framleiða alls konar Fortnite efni sem hitti í mark hjá sístækkandi hópi íslenskra Fortnite-spilara.
„Við fengum til okkar fullt af góðum Fortnite-gestum; Herra Hnetusmjör, Steinda, Donnu Cruz, Króla og fleiri skemmtilega.“ Að ógleymdum Pétri Jóhanni sem spilaði Fortnite í fyrsta skipti með þeim félögum í streyminu á YouTube.“
Í upphafi var Fortnite…
„Sko, áður en Fortnite kom til sögunnar þá var ég rosalega lítið að spila tölvuleiki,“ svarar Stefán Atli ákveðinn þegar hann er spurður hvort Fortnite sé aðal leikurinn. „Ég var kannski eitthvað búinn að spila Minecraft eða Grant Theft Auto en ég varð alvöru „gamer“ þegar Fortnite kom til sögunnar og ég er með nokkur hundruð klukkutíma undir beltinu í leiknum.“
Ekkert bendir til annars en að klukkutímunum sem Stefán Atli ver í leikinn muni halda áfram að fjölga þar sem hann telur einfaldlega að með Fortnite hafi Epic Games töfrað fram einn besta tölvuleik sem gerður hefur verið.
„Vegna þess að það er alltaf verið að uppfæra hann, þróa og koma með nýjungar. Ný „skin“, eða búninga, ný vopn og ný tækifæri,“
segir Stefán Atli og bendir einnig á að Epic Games flétti sumt það vinsælasta úr dægurmenningunni; „mím“ og frægðarfólk listilega vel saman við leikinn.
Áhrifavaldar og efnisframleiðendur fái þannig til dæmis stundum sína eigin búninga í leiknum og hann bendir á að okkar eigin Laufey hafi til dæmis nýlega fengið lag og dans eftir sig inn í Fortnite.
„Þannig að það er sniðugt hvernig þau í Fortnite nota það sem er efst á baugi í afþreyingar menningunni til þess að tengja leikinn við líðandi stund. Þannig að já, Fortnite er besti tölvuleikur allra tíma að mínu mati.“
Myndir: aðsendar