Xenobreakers er nýr tower defense-leikur, en þar stíga spilarar inn í hættulegan og fjandsamlegan heim þar sem markmiðið er að stjórna för hermanna yfir eyðimerkursvæði þar sem hættur leynast við hvert fótmál. Leikurinn sameinar taktíska spennu, áhrifamikla og sjónræna framsetningu og góða sögu í gegnum handteiknaðar myndasíður sem draga upp ferðalag hetjunnar Billy og áhafnar hans.
Sögusviðið er plánetan Kernas, þar sem geimskipið Lockwood hefur hrapað eftir að hafa verið skotið niður. Áhöfnin er einangruð og í stöðugri hættu vegna árása frá risabjöllum, vélmenna og öðrum hættulegum óvinum. Spilarar taka að sér hlutverk varnaraðila og hafa heimild til að nýta háþróað turnakerfi og sérhæfða hæfileika til að tryggja að enginn verði skilinn eftir.
Skemmtileg uppbygging og fjölbreytt leikflæði
Leikurinn skiptist í 16 leikstig sem leiða spilara um fjögur ólík vistkerfi – hvert með sínum sérkennum og hættum. Í gegnum leikinn mætir þú yfir 30 tegundum óvina, sem hver um sig býr yfir sínum eigin hæfileikum og hegðunarmynstri, þar á meðal þrír öflugir boss-ar sem krefjast nákvæmrar og úthugsaðrar varnaráætlunar.
Spilarar hafa til umráða 5 grunnturna, sem hægt er að uppfæra frá MK I til MK III, hver með sín sérstöðu og uppfæranlegum eiginleika. Til viðbótar koma 4 virki sem spilarar geta kallað fram á lykilstundu og styrkt vörnina enn frekar.
Hæfileikakerfi og gagnabanki
Leikurinn býður upp á sveigjanlega spilun með 48 hæfileikum sem verða aðgengilegir eftir því sem spilunin þróast og opnast með því að safna medalíum fyrir frammistöðu í leikstigum. Þannig geta spilarar sérsniðið bæði hæfileika og turnana sjálfa að sínum leikstíl – og endurstillt allt kerfið ef ný nálgun reynist betri.
Í gagnabanka leiksins safnast upplýsingar um óvini, eiginleika þeirra og styrkleika – sem auðveldar spilurum að greina hættur og móta skýrar varnarleiðir í komandi bardögum. Þar er einnig að finna 12 blaðsíðna handteiknaða myndasögu, sem sýnir ferðalag Billy og hópsins í gegnum heljarinnar aðstæður – og hægt er að skoða aftur og aftur.
Tónlist, viðmót og snjall leikhönnun
Tónlistin í leiknum er fínleg og þjónar stemningunni vel – hún er aldrei íþyngjandi en heldur spennunni við líði. Viðmótið sjálft er einfalt í notkun og notandavænt, og hægt er að sérsníða liti og útlit þess eftir eigin smekk.
Inngönguleiðir óvinanna fjölga jafnt og þétt, sem heldur spilurum á tánum, og áður en næsta bylgja hefst fær spilarinn tíma til að virkja öflugar varnir á borð við Orbital Laser eða Auto Turret. Þessi dýnamík eykur stjórn spilarans á framvindu leiksins og býður upp á tækifæri til að endurskipuleggja varnirnar áður en næsta bylgja skellur á.
Tilkynningar um nýjar tegundir óvina eru skýrar og gagnlegar, með upplýsingum um hraða, heilsustig og árásargetu viðkomandi óvinar. Skemmtilegur fítus eru engispretturnar, sem hoppa yfir hermennina en eru síðan teknar niður með leysigeislum eða Mortar-turnum – góð dæmi um hvernig leikurinn brýtur upp fyrirsjáanleika og heldur leikmönnum vakandi.
Lokaorð: Frumleg og vel útfærð blanda af stefnu og sköpun
Leikurinn Xenobreakers er bæði glæsilegur og krefjandi – leikur sem sameinar aðgengi við dýpt, og einfaldleika við taktíska fjölbreytni. Hvort sem þú ert nýr í tower defense leikjum eða reyndur spilari sem leitar að ferskri upplifun, þá hefur þessi leikur margt fram að færa.
Mælum með þessum leik sem hægt er að skoða nánar á Steam með því að smella hér.
Ég fékk leikinn án endurgjalds gegnum Keymailer.co. Rýnin er byggð á minni eigin reynslu og birting hennar er án utanaðkomandi áhrifa.