Fyrirtækið Bungie, dótturfyrirtæki Sony og þekkt fyrir vinsæla leikjatitla á borð við Halo og Destiny, hefur tilkynnt útgáfudag fyrir næsta stóra verkefni sitt – endurvakningu á klassíska leiknum Marathon. Samkvæmt frétt frá psfrettir.com kemur leikurinn út 1. september 2025 og verður fáanlegur á PlayStation 5, Xbox Series X|S og PC.
Sjá einnig: Sony bætir í vopnabúrið: Keyptu 9 tölvuleikjafyrirtæki fyrir yfir 4 milljarða dala
Þrátt fyrir mikla eftirvæntingu frá sumum, hefur viðbrögð notenda á samfélagsmiðlum verið blendin. Margir efast um gæði leiksins og telja að Bungie hafi misst marks. Þó að Bungie hafi lengi verið þekkt fyrir nákvæma skotbardaga og vel útfærða vopnamekaník, telja sumir að það dugi ekki eitt og sér ef leikheimurinn sjálfur virkar óspennandi.
Ásýnd leiksins hefur verið sögð „flöt og óspennandi“, og margir spyrja sig hvers vegna ætti að greiða 40 dali fyrir leik af þessari gerð þegar þúsundir annarra skotleikja eru aðgengilegir ókeypis á markaðnum.
„Gunplay eitt og sér selur ekki leikinn ef borðin og umhverfið er óaðlaðandi,“
segir einn Twitter-notandi, og margir taka undir.
Á móti ber að taka fram að þeir sem hafa lesið eða prófað leikinn í lokuðum prufum virðast sannfærðir um gæði hans. Í umsögnum má lesa að Marathon bjóði upp á frumlega nálgun á fjölspilun, glæsilega hljóðhönnun og nýstárlega spilun sem gæti vakið athygli þeirra sem leita að öðruvísi skotleikjaupplifun. Hvort það dugar til að réttlæta verðið og vinna til baka traust markaðarins verður að koma í ljós í haust.
Kynningarmyndband sýnir fyrstu spilun – IGN gefur innsýn í leikinn
Í meðfylgjandi myndbandi má sjá opinbera kynningarstiklu (trailer) og leikbrot (gameplay) úr Marathon, sem birt var á IGN.com. Myndbandið veitir fyrstu innsýn í hvernig leikurinn spilast, ásamt því að sýna hönnun, notendaviðmót og spilun. Þetta gefur áhugasömum spilurum tækifæri til að mynda sér sjálfstæða skoðun áður en leikurinn kemur út í haust.
Mynd: marathonthegame.com