Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra hefur skipað starfshóp sem móta á stefnu um hvernig efla megi umgjörð rafíþrótta hér á landi. Til rafíþrótta teljast meðal annars skipulagðar keppnir í ýmiskonar tölvuleikjum.
Færst hefur í vöxt að tölvuleikir séu spilaðir á tengdum forsendum og iðkun íþrótta, þ.e. að þátttakendur keppi sín á milli í liðum, stundi markvissar æfingar og hugi að samspili líkamlegar og andlegrar heilsu til að ná betri árangri.
Ráðgert er að hópurinn ljúki störfum í lok febrúar 2021 en aðalmenn í honum eru:
- Ólafur Hrafn Steinarsson, formaður, tilnefndur af Rafþróttasamtökum Íslands
- Valgerður Þórunn Bjarnadóttir án tilnefningar
- Victor Berg Guðmundsson tilnefndur af Samfés
- Ragnheiður Sigurðardóttir tilnefnd af Ungmennafélagi Íslands
- Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir, tilnefnd af Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands.
„Tölvuleikir eru stór þáttur í afþreyingu fólks á öllum aldri og kringum þá er menning sem getur nýst á uppbyggilegan hátt á mörgum sviðum samfélagsins. Tölvuleikir eru margskonar og þróun þeirra geysilega hröð. Ég tel brýnt að við skoðum það umhverfi sem þegar hefur mótast um æfingar og mót í tölvuleikjum og mótum stefnu um næstu skref í því samhengi,“
segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.
„Verðmæti skipulags félagsstarfs er óumdeilt á Íslandi en þó er fjöldi barna sem ekki finnur skipulagt starf sem hentar þeim. Það skýtur skökku við að eitt stærsta einstaka áhugamál íslenskra barna sé án umgjarðar og stuðnings. Með skipun starfshóps um rafíþróttir er mennta- og menningarmálaráðherra og hennar starfslið að sýna með afgerandi hætti að þeirra markmið er að vera til staðar og skapa uppbyggilegt umhverfi til framtíðar fyrir öll börn og ungmenni Íslands til jafns.
Með skýrri stefnu í málefnum rafíþrótta má hefjast handa við að byggja rafíþróttaumhverfi í heimsklassa á Íslandi, sem styður við fjölbreyttan hóp tölvuleikjaáhugamanna sem í gegnum rafíþróttir skapa tengsl og þróa mikilvæga þætti eins og samvinnu, samskipti og heilbrigðan lífsstíl,“
segir Ólafur Hrafn Steinarsson, formaður Rafþróttasamtaka Íslands og formaður starfshópsins.
Mynd: leagueoflegends.com