Undanfarna mánuði hafa bestu lið landsins att kappi í leikjunum tveimur til að komast svona langt. Í League of Legends voru FH (sem áður hét Frozt) efstir í deildinni með 11 sigra og 1 tap.
Á eftir þeim koma Dusty með 9 sigra og 3 töp. Bæði liðin komust frekar auðveldlega í gegnum undanúrslitin gegn KINGS og Old Dogs.
Á bak við tjöldin hjá Dusty
Í Counter-Strike var HaFiÐ efst í deildinni með 12 sigra og 0 töp. Á eftir þeim, eftir harða baráttu við Tropadeleet og KR, koma Fylkir með 5 sigra og 7 töp. Bæði liðin sigruðu mótherja sína í undanúrslitum en Tropadeleet gaf Fylki ekkert eftir og endaði viðureign þeirra í 2-1 Fylki í vil, að þvi er fram kemur í fréttatilkynningu frá Rafíþróttasamtökum Íslands.
Miðvikudaginn 26. júní mætast FH og Dusty í úrslitum í League of Legends. Fimmtudaginn 27. júní mætast HaFiÐ og Fylkir í úrslitum í Counter-Strike: Global Offensive. Úrslitin verða haldin í sal 1 í Háskólabíó og hefjast klukkan 18:30. Frítt er inn á meðan pláss leyfir en hægt er að tryggja sér sæti ásamt miðstærð af poppi og kóki á kr. 1.500 hér.
Pláss er fyrir um 300 gesti og því hægt að gera ráð fyrir því að stemningin verði mögnuð á staðnum. Einnig er hægt að fylgjast með úrslitunum á Twitch rás Rafíþróttasamtaka Íslands.
Mynd: aðsend