Þjófnaður átti sér stað í gær, laugardaginn 12. apríl, í afþreyingarrýminu Arena Gaming í Kópavogi. Þar kom óviðkomandi aðili inn á staðinn og fór á brott með PlayStation 5 leikjatölvu án leyfis.
Forsvarsmenn Arena Gaming hafa þegar til umráða skýra og greinargóða mynd af einstaklingnum sem grunaður er um verknaðinn. Þeir hafa þó ákveðið að reyna að leysa málið í sátt áður en til formlegra aðgerða kemur.
„Við viljum helst fá búnaðinn okkar aftur án tafar og án þess að grípa þurfi til lögreglu,“
segir í tilkynningu frá Arena Gaming.
„Ef viðkomandi – eða einhver sem þekkir hann – getur komið tölvunni til okkar aftur, lofum við að engir frekari eftirmálar verði af málinu.“
Til að hvetja til lausnar málsins býður Arena Gaming einnig umbun fyrir upplýsingar sem leiða til þess að PlayStation 5 tölvan skili sér aftur. Tryggð er full nafnleynd og trúnaður gagnvart þeim sem leggja málinu lið.
Ef tölvan hefur ekki skilað sér fyrir lok dags á mánudag, 14. apríl, mun fyrirtækið kæra málið formlega til lögreglu. Þá tekur við formlegt ferli sem gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir þann sem málið varðar.
Þeir sem hafa einhverjar upplýsingar um málið eru hvattir til að hafa samband við Arena Gaming í einkaskilaboðum á Facebook eða Instagram, eða með því að senda tölvupóst á netfangið [email protected].
Mynd: facebook / @arenagamingisl