„Eftir mikla umhugsun þá hef ég ákveðið að gefa ekki kost á mér í áframhaldandi störf sem formaður RÍSÍ á komandi aðalfundi…“
Skrifar Ólafur Hrafn Steinarsson, formaður Rafíþróttasamtaka Íslands (RÍSÍ) í facebook færslu sem hann birti í dag.
Lesa má tilkynninguna í heild sinni hér að neðan:
Kæru vinir
Undanfarnar vikur hef ég legið undir feld og hugsað um framtíð mína innan rafíþrótta. Síðustu 4 ár hafa verið mikill rússíbani sem hafa tekið mikið á en á sama tíma verið mjög gefandi en undanfarið ár hefur mig langað að gera einhverjar breytingar.
Eftir mikla umhugsun þá hef ég ákveðið að gefa ekki kost á mér í áframhaldandi störf sem formaður RÍSÍ á komandi aðalfundi, né mun ég halda áfram í stjórn samtakanna. Ég mun þó enn bjóða fram hjálp mína og sinna verkefnum og sjálfboðastörfum fyrir samtökin sé þess þörf.
Þegar ég fór í þá vegferð að stofna RÍSÍ, þá var draumurinn að samfélagið ætti samtök sem börðust fyrir hagsmunum íslensks rafíþróttafólks, bæði hérlendis og erlendis og samtök sem börðust fyrir sterku yngri flokka starfi sem tryggir okkar framtíðar rafíþróttafólki bestu möguleikana á velgengni hvort sem það er í rafíþróttum eða í lífinu. Í dag eru þessi samtök til og eru full af fólki sem vinna ötullega að enn bjartari framtíð.
Í dag má með sanni segja að tækifæri og viðhorf tengd tölvuleikjum á Íslandi eru allt önnur en þau voru fyrir 4 árum. Hvort sem það er möguleikinn á að æfa rafíþróttir á heilbrigðan hátt í hópi jafningja eða möguleikar á að keppa innanlands eða erlendis. Heimur tölvuleikja á íslandi hefur tekið stakkaskiptum. Af þessum árangri er ég óendanlega stoltur og ekkert af þessu væri mögulegt án þátttöku fjölda fólks og trúar þess á að við getum byggt betra umhverfi fyrir tölvuleikjaáhugamálið en nokkurntíman áður.
Ég vil þakka öllum þeim sem lögðu hönd á plóg og öllum þeim sem trúðu, innilega fyrir, ekkert af þessu væri til í dag án ykkar.
Nú hef ég setið sem formaður í rúm fjögur ár og á þeim tíma hef ég gefið allt sem ég á í starfið og fylgst með senunni allri vaxa hraðar en mig óraði fyrir. Mér finnst hinsvegar að ungar hreyfingar eins og rafíþróttahreyfingin þurfi að bjóða fleirum tækifæri á að stjórna til að halda áfram örum vexti og forðast það að festast í sama farinu. Þó það væri eflaust skemmtilegt að ílengjast í formannshlutverkinu í tugi ára þá finnst mér mikilvægara að aðrar og nýjar raddir fái að heyrast og það myndist ekki sú menning að formenn sitji áfram bara til að sitja. Fyrir fjórum lögðum við upp með fimm grunnstoðir rafíþrótta á Íslandi og í dag eru þær allar til staðar og því tími fyrir nýjan kafla.
Ég mun að sjálfsögðu vera innan handar ef mín er þörf og sama hver það er innan rafíþrótta á Íslandi þá má alltaf hafa samband við mig og ég mun gera hvað ég get til að aðstoða.
Ég fer þó ekki langt, það sem tekur núna við minni óskiptu athygli er mín raunverulega ástríða í þessu öllu saman, að byggja besta skipulagða rafíþróttastarf á yngri stigum sem völ er á í heiminum.
Þar hef ég ásamt reynslumiklum hóp stofnað fyrirtækið Esports Coaching Academy, sem mun einblína á menntun og uppbyggingu þjálfara og stuðning við yngri flokka starf í rafíþróttum bæði á Íslandi sem og erlendis.
Áhuginn á skipulögðu rafíþróttastarfi eykst stöðugt og ég tel mig og okkur í ECA hafa mikið fram að færa í þeim flokki og að við getum hjálpað sömu umbreytingu á tölvuleikjaáhugamálinu sem hefur átt sér stað hérna heima að eiga sér stað víðsvegar um heiminn.